Ágrip erinda
Aðalheiður Guðmundsdóttir
Saga af fjórum kaupmönnum – Um rithefð og rætur almúgabókar
Í erindinu er fjallað um Sögu af fjórum kaupmönnum sem var þýdd yfir á íslensku á 17. öld. Sagan heyrir til svonefndra almúgabóka (þý. Volksbücher, da. Folkebøger) sem eru í grunninn afþreyingarbókmenntir sem spruttu fram í kjölfar prentlistarinnar, þegar ódýrt var að prenta bæklinga og selja. Sögur almúgabóka voru að jafnaði styttar í þeim tilgangi að takmarka pappírsnotkun, en með því móti var ódýrara að prenta þær og líklegra að almenningur hefði efni á að kaupa þær. Það sem er einkum áhugavert að athuga í þessu samhengi er hversu langt er hægt að ganga í að stytta sögur án þess að merking þeirra beri skaða af. Í erindinu verður því lögð áhersla á það endursköpunarferli sem á sér stað þegar bókmenntatextar eru styttir.
Alda Björk Valdimarsdóttir
„Líkt og hún væri í framandi landi“ – Um „The Displaced Person“ eftir Flannery O‘Connor
Fjallað verður um söguna „The Displaced Person“ eftir Flannery O‘Connor með hliðsjón af hugmyndum um að tilheyra; hvort sem það felur í sér að eiga sér fastan stað líkt og heimili, öryggi í peningum og eignum eða samastað í trúnni. Hvaða þýðingu hefur það þegar þú missir forréttindi þín líkt og stöðu, stétt, heimili, fjölskyldu og heilsu? Getum við sótt mikilvæga þekkingu eða sannindi til þeirra sem eru á vergangi, heimilislaus, eignalaus, strípuð og blind? O‘Connor brýtur í senn niður persónur sínar og neyðir þær, rétt eins og lesendur sína, til þess að horfast í augu við eigin takmarkanir og vonsku.
Arngrímur Vídalín
Smásagan sem var ekki til – Tilurð Íslendingaþátta sem bókmenntagreinar
Í þessum fyrirlestri verður rakið hvernig viðtökusaga Íslendingaþátta á tuttugustu öld varð til þess að gera úr þeim bókmenntagrein sem ekki var til áður, og rök færð fyrir því að Íslendingaþættir hafi fyrst orðið að smásögum þegar farið var að meðhöndla þá sem slíkar. Þannig mætti segja að miðaldasmásagan sé tilbúningur nútímaviðtakenda þeirra og verður vöngum velt yfir því hvaða áhrif sú flokkun getur haft á skilning okkar á hlutverki þeirra í bókmenntasögunni.
Ármann Jakobsson
Úr sjálfstæðisbaráttunni – Íslendingaþættir og tveggja alda saga þeirra
Bókmenntagreinin Íslendingaþættir varð ekki til fyrr en á 20. öld sem yfirheiti yfir kafla úr íslenskum konungasögum og nokkrar smávaxnar Íslendingasögur. Að þessu er aðdragandi í handritum; dæmi finnast um þætti konungasagna skrifaða upp sjálfstæðir strax á 15. öld. Fyrir útgáfu þátta eru til fáein smásagnahandrit, það merkasta ritað í Hrútafirði af 19 ára pilti um 1810. Elstu þáttaútgáfur eru undir áhrifum frá handritum en um 1900 verður til bókmenntagreinin Íslendingaþættir sem hugmyndafræðileg nauðsyn vegna sjálfstæðisbaráttunnar og Björn M. Ólsen rektor gaf út Stúfs þátt sem fylgirit fyrstu Árbókar Háskóla Íslands. Í erindinu er þessi saga rakin frá 19. öld til okkar daga.
Ásdís Rósa Magnúsdóttir
Rammafrásagnir í barnabókum 18. aldar – Le magasin des enfants og Kvöldvökurnar 1794
Rammafrásagnir setja svip sinn á evrópsk smásagnasöfn allt frá 14. öld og svipaða umgjörð má síðar finna í ítölskum ævintýrasöfnum frá 16. öld. Undir lok 17. aldar fléttar rithöfundurinn Mme d’Aulnoy sitt fyrsta conte de fée inn í skáldsögu og býr, nokkrum árum síðar, til frásögn utan um nokkur ævintýranna í safni sínu, Contes de fées, sem tengir þau hvert við annað þótt þau eigi fátt sameiginlegt. Í Magasin des enfants, fyrsta franska sögusafninu sem ætlað var börnum, býr Madame Leprince de Beaumont til umgjörð sem styður við siðferðislegan boðskap og markmið verksins. Í erindinu verður fjallað um hlutverk rammafrásagna og hugsanleg áhrif Magasin des enfants á uppbyggingu fyrsta íslenska safnritsins sem ætlað var börnum, Kvöldvökurnar 1794 eftir Hannes Finnsson.
Ásta Kristín Benediktsdóttir
Er smásagan hinsegin bókmenntagrein?
„Það er eitthvað hinsegin við smásöguna,“ segir norski bókmenntafræðingurinn Axel Nissen í grein frá 2004. Hann bendir á að smásagan hefur, rétt eins og hinsegin fólk, gjarnan verið í jaðarstöðu gagnvart skáldsögunni og þurft að réttlæta tilvist sína og gildi – og bæði smásagan og samkynhneigð í nútímaskilningi eiga enn fremur rætur að rekja til loka 19. aldar. Í þessu erindi verður sjónum beint að nokkrum íslenskum smásögum frá fyrri hluta 20. aldar og hugað að því hvernig hinseginleiki og samkynja ástir birtast þar. Enn fremur er spurt hvort færa megi rök fyrir því að smásagan sé hinsegin bókmenntagrein og hvernig slíkir eiginleikar birtist í formgerð hennar og byggingu.
Ástráður Eysteinsson
Smá saga – stór heimur
– Um smásögur út frá Edgar Allan Poe
Vikið verður að því hvernig bandaríska ljóðskáldið Poe varð einn mikilvægasti höfundur stuttra frásagna jafnt í Bandaríkjunum sem víðar um lönd. Ræddur verður skilningur hans á afmörkuðu sniði slíkra sagna en jafnframt litið til hinnar víðu og fjölbreyttu sýnar sem einkennir sögur hans, þar sem glæpurinn, ferðalagið, náttúran og hrollurinn eru grunnstef – og forneskjan á samleið með nútímanum. Í þessu samhengi verður og fjallað um hlutdeild Poes í íslensku bókmenntalífi, í sögulegu ljósi sem og í tengslum við bók með verkum hans á íslensku sem væntanleg er á haustmánuðum.
Benedikt Hjartarson og Jonas Bokelmann
Frá smásögu til fregnritunar: Egon Erwin Kisch, nýja hlutlægnin og bókmenntalega vettvangsfrásögnin
Í bókinni Einbahnstraße (1928) fullyrti Walter Benjamin að „bygging lífsins“ væri „nú um stundir mun fremur á valdi staðreynda en sannfæringar“ og að „sönn bókmenntaiðja“ gæti ekki lengur „gert tilkall til að fara fram innan ramma bókmenntanna“. Áherslan á staðreyndir setti sterkan svip á alla bókmenntaumræðu innan róttæku vinstrihreyfingarinnar á þessum tíma og ein þeirra nýju bókmenntagreina sem kom fram var svokölluð literarische Reportage. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að skrifum Egons Erwins Kisch, sem öðrum fremur átti þátt í að móta þessa bókmenntagrein, og viðtökum þeirra hér á landi, m.a. með hliðsjón af nokkrum þýðingum.
Dagný Kristjánsdóttir
Í hryllingshúsi Ástu Sigurðardóttur
Ásta Sigurðardóttir, skáldkona, var heimsfræg í Reykjavík á fjórða áratugi aldarinnar sem leið. Hún var íðilfögur og ögrandi, drykkfelld og ruddaleg, karlarnir þráðu hana og konurnar fyrirlitu hana. Ásta skrifaði bersöglar smásögur sem hleyptu bæjarfélaginu litla í bál og brand – annað eins hafði aldrei sést. En á bak við ögranir og gusugang bjó önnur manneskja full af myrkri.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um smásöguna „Frostrigningu“, langt og illa farið handrit sem ekki var birt meðan Ásta lifði.
Guðrún Björk Guðsteinsdóttir
Sagnasveigurinn í hnotskurn Davids Arnason
Smásagan „Fimmtíu sögur og eitt heillaráð“ eftir David Arnason er afskaplega sérstæð, brýtur hefðbundna byggingu smásagna. Hún er samsett úr 51 örsögu: fimmtíu sögum og einu heilræði að sögn höfundar í titli sögunnar, sem hann hampar alveg sérstaklega með því að það er jafnframt titill smásagnasafnsins Fifty Stories and a Piece of Advice, sem kom út árið 1982. Ef sagan er lesin sem sveigur örsagna fremur en sem smásaga verður hún aftur á móti mjög merkingarbær, því hún vísar margvíslega í þekktar hefðir og stef sagnasveigins á ensku, eins og ætlunin er að sýna með rýni í örsveig Davids.
Guðrún Kristinsdóttir
Greifynjan af Tende og aðrar sögulegar smásögur Madame de Lafayette
Minni úr trúarbragðastríðunum sem geisuðu í Frakklandi á 16. öld fara hljótt í frönskum gullaldarbókmenntum 17. aldar. Þó héldu trúmál áfram að vera pólitískt bitbein allt þar til trúfrelsi var afnumið í valdatíð Loðvíks 14. árið 1685. Í þessu erindi verður rýnt í nokkrar birtingarmyndir trúarbragðastríðanna í sögulegum smásögum frá 17. öld, í ljósi kenninga um harmræna fjarlægð. Sérstök áhersla verður lögð á smásögur Madame de Lafayette sem fjalla um ástir og afbrýði og hörmulegar afleiðingar þeirra; iðrun og yfirbót (eða ekki). Drepið er á hugmyndir gagnsiðbótar sem koma fram í sögunum og pólitískt vægi þeirra.
Guðrún Steinþórsdóttir
Nokkrir þankar um eiginkonu Guðs – Um samspil ímyndunar og veruleika í þremur sögum eftir Kristínu Ómarsdóttur
Rithöfundurinn Kristín Ómarsdóttir er þekkt fyrir að leika sér með mörk ímyndunar og veruleika í skáldskap sínum. Gott dæmi um það er sagnasafnið Einu sinni sögur sem Kristín sendi frá sér árið 1992. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þrjár sögur verksins, sem eiga það sameiginlegt að hverfast um Guð og eiginkonu hans, með hliðsjón af kenningum um ónáttúrulegar frásagnir, ímyndunaraflið og sköpunarhæfnina. Meðal annars verður kannað hvaða tilfinningum sögurnar miðla, hvaða aðferðum skáldkonan beitir til að fylla inn í eyður Biblíunnar og hvernig lesendur kunna að bregðast við nýjum upplýsingum um fjölskylduhagi Guðs og sköpunarsöguna.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir
Skrifað í nýju landi – Um smásögur höfunda af erlendum uppruna á Íslandi
Erindið mun fjalla um smásögur, örsögur og stutta prósa eftir höfunda af erlendum uppruna á Íslandi. Einkum verða skoðaðar sögur frá síðustu 10 árum, en eldri dæmi einnig rædd. Velt verður upp spurningum um tungumál, form, efnistök og viðtökur verkanna og rýnt verður í þemu á borð við sjálfsmynd, minni, landslag og tengslin við upprunann. Þá verða smásögurnar skoðaðar í ljósi kenninga um bókmenntir og fólksflutninga, bókmenntir og tvíheima (diaspora) og bókmenntir og minni.
Haukur Ingvarsson
„Kalda stríðinu er kannski lokið …“ – Leigjendur, leigusalar og heimsmynd kalda stríðsins í ljósi smásögunnar „Hundrað og fimmtíu fermetrar á hundrað þúsund kall“ eftir Kristínu Eiríksdóttur
Árið 2013 birti Kristín Eiríksdóttir smásögu í TMM sem nefnist „Hundrað og fimmtíu fermetrar á hundrað þúsund kall“. Sagan er bæði margslungin og margbrotin en hún fjallar um raunir parsins Æsu og Dána á leigumarkaðnum í Reykjavík skömmu eftir hrun. Parið virðast hafa dottið í lukkupottinn þegar því býðst íbúð á grunsamlega lágu verði en smám saman rennur upp fyrir parinu að íbúðin á sér fortíð sem tekur yfir líf þeirra. Ein birtingarmynd þessa fortíðardraugs er bókasafn fyrri íbúa sem samanstendur að miklu leyti af bókum um kalda stríðið sem Dáni bendir á að sé „kannski lokið“ en samt sjái heilu kynslóðirnar enn þá heiminn í ljósi þess og það séu „einmitt þessar kynslóðir sem sitja við völd.“ Athugasemd Dána kemur ískyggilega vel heim og saman við umræðu um þróun heimsmála síðustu misseri en um leið vísar sagan með spennandi hætti til lykilverka í íslenskri bókmenntasögu sem fjalla um heimsmynd kalda stríðsins í ljósi sambands leigjenda og leigusala, nefnilega Tómas Jónsson: Metsölubók (1966) eftir Guðberg Bergsson og Leigjandinn (1969) eftir Svövu Jakobsdóttur.
Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að valdakerfinu sem felst í sambandi leigjanda og leigusala og jafnframt spurt hvers vegna íslenskir höfundar hafa notast við þetta valdakerfi til að fjalla um heimsmynd kalda stríðins. Einnig verður efnið sett í samhengi við rannsóknir síðustu tveggja áratuga á birtingarmyndum kalda stríðsins í bókmenntum.
Helga Birgisdóttir
Hvað ætti mér að finnast? – Framhaldsskólinn og smásagan
Framhaldsskólanemum finnst smásögur oft stór áskorun og í viðtölum við rannsakanda sögðust þeir lítið tengja við persónur sagnanna, eiga erfitt með að orða skoðanir sínar og hugsi meira um hvað þeim ætti að finnast frekar en það sem þeim í raun finnst. Skoðaðar verða rannsóknir Ritu Felski um ólík geðhrif sem textar geta vakið há lesendum sem og hugmyndir hennar um sögusamúð og þær tengdar aðferðum við að fá framhaldsskólanema til að tengja við sögupersónur svo þeir geti – og þori – að segja hvað þeim finnst.
Huldar Breiðfjörð
Stuttar sannar sögur. Um sannsöguleg verk eftir Annie Ernaux
Höfundarverk Annie Ernaux er ekki síst sérstakt fyrir þær að sakir að mikið af því samanstendur af stuttum sögum (30–100 blaðsíður). Henni er gjarnan skipað í raðir endurminningahöfunda (memoirist) þótt sjálf hafi Ernaux ákveðnar efasemdir um minni sitt. Sögurnar eiga til að breytast í beinar útsendingar frá ritun þeirra en hún býður lesandanum reglulega að skrifborðinu þar sem hún veltir fyrir sér efnistökum sínum. Hinar styttri sögur Annie Ernaux hverfast líka gjarnan um ákveðinn atburð eða kjarna – svipað og í smásögum – og hér verður formið á þeim skoðað ásamt einkennum höfundarins.
Jón Karl Helgason
„Í fjólunni endurómar altraddarlegt heiti á fallegum bæ“ – Smásögur tveggja rússneskra meistara og þýðingar þeirra
Meðal margra nýrra bókmenntaþýðinga sem birtust í lokabindi ritraðarinnar Smásögur heimsins árið 2020 var þýðing Rúnars Helga Vignissonar á smásögunni „Vor í Fíalta“ eftir Vladimir Nabokov. Í sögunni er vísað í eldri smásögu eftir annan rússneskan sagnameistara, „Konan með hundinn“ eftir Anton Tsjekhov. Hún kom út í íslenskri þýðingu Árna Bergmann 1998 en til er eldri þýðing Kristjáns Albertssonar á henni. Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl sagnanna tveggja og þýðingar þeirra, einkum glímu Rúnars Helga við að snúa texta Nabokovs yfir á íslensku.
Jón Yngvi Jóhannsson
Að flækjast í bókmenntahugtökum – Smásögur fyrir framhaldsskóla og hliðartextar þeirra
Smásögur hafa gegnt lykilhlutverki í bókmenntakennslu í framhaldsskólum síðustu hálfa öld eða svo. Á þeim tíma hafa komið út nokkur smásagnaúrvöl ætluð kennurum og nemendum í framhaldsskólum. Þessi smásagnaúrvöl hafa án efa átt sinn þátt í mótun kanóns íslenskra bókmennta en þau tengjast líka sögu íslenskrar bókmenntafræði og bókmenntakennslu. Í fyrirlestrinum verður rýnt í hliðartexta (paratext) þessara smásagnasafna, formála, skýringar, verkefni og kennsluleiðbeiningar og kannað hvaða bókmenntahugtök koma þar við sögu, bæði hugtök sem lúta að smásögum sérstaklega og hugtök sem tengjast bókmenntafræði og bókmenntalestri á víðari grundvelli.
Kristín Guðrún Jónsdóttir
Hugarórar eða raunverulegur hryllingur? – Um óræðar verur í sögum Amparo Dávila
Í sögum Amparo Dávila (Mexíkó 1928–2020) bregður oft fyrir verum sem erfitt er að átta sig á; hvort um sé að ræða fólk, dýr, drauga, samgengla eða eitthvað allt annað. Dávila gaf út fyrstu sögur sínar á sjötta áratug síðustu aldar þegar mikill uppgangur var í smásagnaskrifum í Mexíkó og öðrum löndum Rómönsku Ameríku. Verk Dávila eru oft sett í samhengi við furðusögur eða hrollvekjur. Sjálf segist hún skrifa um fyrirbæri sem eru sprottin af raunverulegri reynslu. Í erindinu verða þessar einkennilegu verur teknar fyrir og velt upp hvað sé mögulega á bakvið þær. Einnig verður minnst á sögur annarra rithöfunda sem skrifuðu um svipað leyti og eiga ýmislegt sameiginlegt með Dávila svo sem Silvinu Ocampo, Elenu Garro, Guadalupe Dueñas og Inés Arredondo frá Argentínu og Mexíkó.
Marion Lerner
„Þær eru einhvers virði og áhugaverðar, þrátt fyrir annmarka sína.“ – Íslenskar smásögur í þýskri orðræðu um aldamótin 1900
Um og eftir aldamótin 1900 var áhugi Þjóðverja á íslenskum smásögum merkilega mikill. Þýðingar á þeim birtust í tímaritum, smásagnasöfnum og sérútgáfum. Sumar voru jafnvel þýddar oftar en einu sinni. Einnig sömdu fræðimenn og þýðendur sérrit um íslenskar smásögur til að kynna þær og höfunda þeirra fyrir þýskum lesendum.
Í erindinu verður farið yfir orðræðuna eins og hún birtist í formálum, kynningum og yfirlitsritum. Af hverju beindist áhuginn að þessum textum og höfundum? Hvað þótti merkilegt við þá? Af hverju var eins mikið þýtt og raun ber vitni?
Rebekka Þráinsdóttir
Skýrslur, bréf og myndir úr stríði – Brögð og brellur í Riddaraliði Ísaaks Babels
Ísaaks Babel taldi „bókmenntaleg áhrif“ mikilvægari en „söguleg nákvæmni“, líkt og víða má sjá í smásagnasafni hans Riddaraliðinu. Svið atburða er herför Rauða hersins inn í Pólland á tímum borgarastríðsins sem háð var í kjölfar byltingarinnar 1917. Stíllinn er knappur og sögurnar flestar mjög stuttar og „áhrifin“ fyrir vikið skerkari. Höfundurinn beitir ýmsum brellum til að ná þessu fram, svo sem að reiða fram „skýrslur“ og „bréf“, eða bregða upp svo óvæntum myndum og líkingum að þær nánast skyggja á frásögnina. Í erindinu skoðum við þrjár sögur úr safninu með tilliti til þessa og könnum samspil „áhrifa“ og frásagnar.
Rúnar Helgi Vignisson
Skrifaðu smásögu – Hvernig ber maður sig að?
Þegar nemendur í ritlist eru beðnir um að skrifa smásögu skila þeir stundum texta sem er tilgerðarlegur í forminu, rétt eins og þeir hafi svo fastmótaða hugmynd um það hvernig smásaga eigi að vera að hún tekur af þeim völdin. Séu nemendur beðnir um að skrifa stuttan texta kemur hins vegar iðulega meira skapandi saga og nútímalegri út úr því. Í erindinu verður fjallað um smásagnaskrif út frá sjónarhóli ritlistarkennara og smásagnahöfundar. Spurt verður m.a. um eiginleika smásögunnar og hugmyndir þar um, hver sé munurinn á að skrifa smásögu og skáldsögu, hvort smásagan nýti sér önnur verkfæri en skáldsagan eða á annan hátt og hvaða áhrif lengd hefur á nálgun þess sem skrifar.
Soffía Auður Birgisdóttir
Hin fjölbreytilega smásagnagerð Þórbergs Þórðarsonar
Nafn Þórbergs Þórðarsonar kemur sjaldan upp í umræðu um íslenska smásagnagerð. Þegar grannt er skoðað má þó fullyrða að Þórbergur hafi iðkað smásagnaskrif allt frá því að hann byrjaði að fást við ritlist snemma á tuttugustu öld. Jafnvel mætti segja að fáir íslenskir höfundar hafi nálgast þetta gervi bókmenntanna á jafn fjölbreytilegan máta. Smásögur Þórbergs eru margvíslegar að gerð og lengd. Sumar eru örstuttar en aðrar telja margar blaðsíður og lúta í flestu þeim kröfum sem hefðbundnar skilgreiningar gera til ytri og innri byggingar smásagna. Í fyrirlestrinum verður rýnt í nokkur ólík dæmi um tilraunir Þórbergs Þórðarsonar á sviði smásagnagerðar.
Sveinn Yngvi Egilsson
„Big Two-Hearted River“ eftir Ernest Hemingway sem saga um áföll og umhverfisvitund
Smásagan „Big Two-Hearted River“ (1925) eftir bandaríska rithöfundinn Ernest Hemingway (1899–1961) lýsir útilegu og silungsveiði sögupersónunnar Nick Adams í skóglendi Norður-Michigan. Sagan er sögð í þriðju persónu og er tvíþætt. Fyrri hlutinn lýsir ferðinni á staðinn þar sem Nick tjaldar og undirbýr sig undir silungsveiðina. Síðari hlutinn lýsir svo silungsveiðinni sjálfri. Ýmsir urðu til að gagnrýna Hemingway fyrir hversdagslegar lýsingar hans á umhverfi, athöfnum og hugsunum persónunnar í þessari sögu og hún var höfð til marks um innantóman stíl hans og yfirborðskennda hlutlægni. Það átti þó eftir að breytast þegar Hemingway fór að birta fleiri sögur um Nick Adams og þær fylltu út í myndina af ævi hans. Meðal þeirra er „A Way You’ll Never Be“ (1933) sem lýsir reynslu Nicks í heimsstyrjöldinni fyrri þar sem hann slasast alvarlega. Þó að hvergi sé minnst á stríðið í „Big Two-Hearted River“ má lesa söguna sem óbeint framhald af stríðssögunum um Nick Adams og erfiðri reynslu hans á vígvellinum í Evrópu. Tilraunir hans til að lifa einföldu lífi og njóta útivistar og veiða má skilja sem viðbrögð manns sem er að reyna að jafna sig á alvarlegu áfalli og vill vera einn með sjálfum sér úti í náttúrunni. Í erindinu verður fjallað um söguna út frá kenningum um áföll og frásagnir og einnig hugað að náttúrulýsingum hennar í ljósi vistrýni.